Gömul blogg sem eiga svo sem enn við í dag

Landið sem fýkur burtPublished on 12 March, 2009

Ég leyfi mér að fullyrða að uppblástur er eitt stærsta vandamálið sem Íslendingar eiga við að etja. Þrátt fyrir að margir telji Landsvirkjun mestu ógn við íslenska náttúru held ég að þau gróðurlendi sem hún hefur sökkt og ætlar sér að sökkva í framtíðinni séu bara brotabrot af því gróðurlendi sem hefur fokið á haf út. Í þessu bloggi ætla ég svo sem ekki að vanda Landsvirkjun kveðjurnar enda hef ég alveg orðið vitni af hvernig miðlunarlón hennar hafa komið af stað strandrofi sem áfram hefur ágerst og byrjað að blása úr. Þá hef ég orðið vitni af rofsárum sem rekja má til sívaxandi ferðamannastraums inn á viðkvæmar lendur og vegna ofbeitar búfjár. Vandinn er því að miklum hluta kominn til vegna mannsins þótt náttúran sjálf sé auðvitað ákveðið eyðingarafl.

Talið er að við höfum tapað í kringum 60% af gróðurlendinu frá því að land byggðist m.a. vegna skógarhöggs, mótöku og beitar búfjár í bland við náttúrhamfarir ýmis konar. Eðlileg framvinda hefur ekki komist í gang og því eru stór svæði örfoka ennþá þrátt fyrir að margir áratugir hafi liðið frá gróðurhnignuninni. Þá er talið að 95% af skóglendi hafi verið eytt og það sé kannski fyrst og fremst ástæðan fyrir því að uppblástur hafi farið af stað þar sem jarðvegur var ekki eins bundinn þegar skógurinn var farinn og jurtir höfðu ekki kost á eins og trén að lifa af öskufall og aðrar náttúruhamfarir. Þá hafi skógar veitt skjól og ákveðna temprun á flæði vatns þannig að minna varð um flóð og rásamyndun sem gat leitt af sér rofsár.

En er eitthvað hægt að gera? Getum við einhvern veginn spornað við þessari óheillaþróun?

Í rúm 100 ár hefur Landgræðslan, áður Sandgræðslan, unnið ötult starf í að hefta uppblástur og græða land og bændur hafa lagt hönd á plóg. Margir telja þó að mörg mistök hafi verið gerð í þeim efnum og má þar einkum nefna alaskalúpínuna sem hefur reynst erfið viðureignar þótt hún hafi að sjálfsögðu gert sitt gagn sums staðar. Rannsóknarstarf Landgræðslunnar hefur leitt af sér að núna í mun meira mæli eru íslenskar tegundir nýttar til græðslu eða tegundir sem skapa góðan jarðveg fyrir nýja landnema og aðstoða eða flýta fyrir eðlilegri framvindu. Þá er sífellt verið að finna betri leiðir bæði ódýrari og öflugri til að endurheimta horfin vistkerfi.

Með samstilltu átaki getum við komið landinu okkar í rétt horf aftur og endurheimt verðmætar auðlindir. En við þurfum líka að átta okkur á því að til að svo verði er ekki nóg að græða land, við þurfum líka að vernda land gegn átroðningi. Við þurfum að stjórna ágangi á viðkæmar lendur miklu betur og þá á ég ekki bara við beitarstjórnun heldur þarf einnig að gefa auknum ferðamannastraumi gaum.

 

“Vilja enn undanþágur til losunar”Published on 6 March, 2009

Það mætti nú stundum halda að ákveðið fólk á Alþingi sé einhvers staðar fast í fortíðinni. Nú er krafan að Íslendingar sæki um frekari losunarheimildir en þeir hafa þegar fengið. Veit fólk ekkert hvað er að gerast í heiminum? Kann fólk ekki að skammast sín? Á að fría Íslendinga allri ábyrgð sem snýr að vandamálum sem hafa og eru að skapast vegna mengunar andrúmsloftsins og hlýnun jarðar? Er hægt að réttlæta það að Íslendingar fái auknar losunarheimildir bara út af því að þeir hafa svo lítið mengað í gegnum tíðina miðað við önnur lönd, eða út af því að það ríkir núna hallæri í samfélaginu? Markmið þjóðanna er að sýna sameiginlega ábyrgð og draga verulega úr losun og Ísland hefur skuldbundið sig að gera það í gegnum Kyoto-bókunina. Mörg lönd hafa lokað orkuverum sínum sem brenna jarðefnaeldsneyti og byggt til að mynda kjarnorkuver í staðinn til þess eins að draga úr losun. Margar þjóðir hafa lokað mengandi stóriðjum sínum til þess eins að draga úr notkun, þótt það hafi kostað mörg þúsund, jafnvel tugi þúsund manns vinnuna. Hvað gerir það Íslendinga svona merkilega að þeir ættu að fá aukna heimild í stað þess að fara að fordæmi hinna Vestrænu þjóðanna og reyna að draga úr útblæstri. Þrátt fyrir hallærið núna þá höfum við það mikið betur en flestar þjóðir heims. Atvinnuleysið á Íslandi mælist núna svipað eins og það mælist hjá flestum Evrópuþjóðunum í venjulegu árferði. Getur verið að Ísendingar séu ekki bara allt of góðu vanir. Er ekki kominn tími til að Íslendingar sýni einhverja ábyrgð og reyni að marka sér stefnu inn í framtíðina sem miðar að því að reyna að gera samfélagið sjálfbærara og vistvænna og vera jafnvel fyrsta þjóðin sem stígur skrefið til fulls. Ætlum við virkilega að vera föst í fortíðinni og byggja hið nýja Ísland á gömlum úreldum lausnum, s.s. mengandi stóriðjum, sem á eftir að auka ennfrekar yfirvofandi vandamál sem bíða komandi kynslóðum úrlausnar og búa þeim þannig gerða kreppu að sú sem við glímum núna við bliknar í samanburðinum?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband